Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að þær samkomutakmarkanir sem nú eru í gildi verði framlengdar um eina viku. Það þýðir að áfram verða að hámarki 200 áhorfendur leyfðir á íþróttakappleikjum.
Sem stendur er leyfilegt að hleypa áhorfendum í tvö sóttvarnarhólf, þar sem að hámarki 100 manns mega koma saman í hvort hólf.
Auk þess þurfa áhorfendur að vera með andlitsgrímu allan tímann, sitja í númeruðum sætum og skrá sig inn á völlinn með nafni, kennitölu og símanúmeri.
Í næstu viku er stefnt að afléttingum á samkomutakmörkunum og má þá búast við því að fleiri áhorfendur verði leyfðir á kappleiki, þó ekki liggi fyrir hversu margir þeir kæmu til með að vera.