Öllum boðin bólusetning fyrir Ólympíuleikana og Ólympíumótið

Ólympíuhringirnir lýsa upp hafnarsvæðið í Tókýó.
Ólympíuhringirnir lýsa upp hafnarsvæðið í Tókýó. AFP

Allir keppendur og starfsfólk á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó í sumar eiga þess kost að fá bólusetningu fyrir leikana.

Lyfjafyrirtækið Pfizer hefur boðið Alþjóða ólympíunefndinni og Ólympíunefnd fatlaðra (Paralympic) að íþróttafólkið og fylgdarlið þess, alls staðar að úr heiminum, fái bólusetningu og ólympíuforystan hefur þegið boðið.

„Þessi gjöf er enn eitt verkfærið sem við fáum í hendurnar til þess gera Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra í Tókýó örugga fyrir alla þátttakendur og með henni sýnum við okkar mögnuðu gestgjöfum, Japönum, mikinn stuðning," segir Thomas Bach, forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar.

„Við munum bjóða íþróttafólkinu og fylgdarliði og fararstjórnum fyrir báða leikana að sýna fordæmi með því að þiggja bólusetningar þegar að því kemur," sagði Bach.

Flestar stórþjóðanna á íþróttasviðinu hafa þegar staðfest að þær muni bjóða  sínu íþróttafólki og  fylgdarliði upp á bólusetningu en aðrar, þar á meðal Bretar, hafa ekki stigið það skref enn sem komið er.

Mjög strangar sóttvarnareglur verða á leikunum í Tókýó, m.a. stendur til að skima íþróttafólkið daglega, en mótshaldarar freista þess nú að sannfæra almenning í Japan um að leikarnir geti farið fram. Vaxandi andstaða hefur verið við lelikana í landinu vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

þegar hefur verið ákveðið að engir erlendir áhorfendur fái að koma á leikana og ákvörðun um hvort Japanar fái sjálfir að mæta á áhorfendapallana verður tekin í næsta mánuði. Ólympiuleikarnir eiga að hefjast 23. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert