Í sætum átta til sextán í Split

Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppti í Split í dag.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppti í Split í dag. Ljósmynd/FRÍ

Íslensku kastararnir þrír sem kepptu á Evrópska vetrarkastmótinu í Split í Króatíu í dag náðu ekki að blanda sér í toppbaráttu eða bæta árangur sinn.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir hafnaði í áttunda sæti í afar jafnri keppni í sleggjukasti í flokki U23 ára kvenna. Hún kastaði 61,31 metra en Cecilia Desideri frá Ítalíu sigraði með kasti upp á 63,99 metra. Íslandsmet Elísabetar í greininni er 64,39 metrar.

Hilmar Örn Jónsson hafnaði í sextánda sæti í sleggjukasti karla og kastaði 68,62 metra en Íslandsmet hans er 77,10 metrar. Sigurvegarinn Esref Apak frá Tyrklandi kastaði 75,99 metra.

Mímir Sigurðsson hafnaði í níunda sæti í kringlukasti í flokki U23 ára karla. Hann kastaði 54,23 metra en besti árangur hans er 55,54 metrar. Yauheni Bahutski frá Hvíta-Rússlandi sigraði og kastaði 64,37 metra.

Fjórði Íslendingurinn á mótinu er Guðni Valur Guðnason, Íslandsmethafi í kringlukasti karla en hann keppir í Split á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert