Guðni Valur krækti í silfur

Guðni Valur Guðnason nældi sér í silfurverðlaun í dag.
Guðni Valur Guðnason nældi sér í silfurverðlaun í dag. Eggert Jóhannesson

Guðni Valur Guðnason var rétt í þessu að tryggja sér silfurverðlaun í kringlukasti þegar hann lenti í öðru sæti á evrópska vetrarkastmótinu í Split í Króatíu í dag.

Guðni Valur þeytti kringlunni 63,66 metra, sem er talsvert frá hans besta árangri, Íslandsmetinu sem hann setti í fyrra, sem er 69,35 metrar.

Lengi vel var Guðni Valur í efsta sæti keppninnar, eða allt þar til Ungverjinn János Huszák þeytti kringlunni 65,25 metra í fimmtu tilraun af sex og tryggði sér þar með gullið.

Enginn keppandi náði því ólympíulágmarki á mótinu í dag, sem er 66 metrar.

Fleiri tækifæri munu þó gefast til þess enda fara fleiri mót fram á næstunni áður en frestur til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum rennur út 29. júní næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert