Tékkinn mun leggja línurnar

Vladimir Kolek í landsleik gegn Hollandi.
Vladimir Kolek í landsleik gegn Hollandi.

Landsliðsþjálfari karla í íshokkí, Vladimir Kolek, hefur verið endurráðinn til næstu tveggja ára en starf hans fyrir Íshokkísambandið verður viðameira en áður.

Kolek hefur verið ráðinn afreksstjóri ÍHÍ samkvæmt frétt á heimasíðu sambandsins. Þar segir að Kolek muni flytjast til landsins í ágúst og sé með samning út apríl 2023.

Til stendur að nýta krafta Tékkans með ýmsum hætti. Auk þess að vera landsliðsþjálfari karla mun hann leiða landsliðsstarf allra landsliðanna eins og það er orðað. Mun taka þátt í öllum landsliðsæfingum og undirbúningi allra landsliðanna fyrir öll mót.

Einnig munu aðildarfélög ÍHÍ geta nýtt Kolek í sínu uppbyggingarstarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert