„Maðurinn minn hefur reynslu úr bardagaíþróttum og hann á því auðveldara en aðrir með að setja sig í mín spor,“ sagði Valgerður Guðsteinsdóttir, tvöfaldur Íslandsmeistari í hnefaleikum og fyrsta og eina íslenska atvinnukonan í íþróttinni, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Valgerður ákvað að hella sér út í hnefaleika eftir að hafa unnið sinn flokk á ACBC-mótinu í Gautaborg í Svíþjóð árið 2012.
Hún tók þátt í sínum fyrsta atvinnumannabardaga árið 2016 en hún á að baki sex bardaga á ferlinum, fjórum sinnum hefur hún farið með sigur af hólmi, og tvívegis hefur hún tapað.
„Það eru frekar mamma og pabbi sem vilja ekki horfa á þetta en þau hafa samt sem áður séð mig berjast í tveimur áhugamannabardögum,“ sagði Valgerður.
„Á sama tíma eru þau ótrúlega stuðningsrík og það er frábært að eiga þau alltaf að,“ sagði Valgerður meðal annars.
Viðtalið við Valgerði í heild sinni má nálgast með því að smella hér.