„Hver bardagi og mótherji er einstakur og maður ber virðingu fyrir öllum andstæðingum,“ sagði Valgerður Guðsteinsdóttir, tvöfaldur Íslandsmeistari í hnefaleikum og fyrsta og eina íslenska atvinnukonan í íþróttinni, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Í október 2017 mætti Valgerður Dominiku Covotna frá Tékklandi í bardaga sem fram fór í Ósló í Noregi.
Stuttu eftir bardagann féll Covotna á lyfjaprófi en hún bar þess merki í bardaganum að hún væri búin að vera að notast við stera.
„Að vera á sterum gerir það að verkum að heilinn slekkur ekki endilega á sér, jafnvel þótt maður fái ansi þungt högg á sig,“ sagði Valgerður.
„Ég hefði átt að rota hana í þessum bardaga og hún fór í gólfið alla vega einu sinni. Bjallan bjargaði henni líka á einum tímapunkti og hún rataði ekki í hornið,“ sagði Valgerður meðal annars.
Viðtalið við Valgerði í heild sinni má nálgast með því að smella hér.