Frjálsíþróttamaðurinn Guðni Valur Guðnason náði á sunnudaginn öðru sæti og tryggði sér þar með silfurverðlaun í kringlukasti á evrópska vetrarkastmótinu í Split í Króatíu þegar hann þeytti kringlunni 63,66 metra.
Um var að ræða fyrsta alþjóðlega mótið sem Guðni Valur keppir á síðan á HM í Doha árið 2019 og fyrsta mótið yfir höfuð síðan í haust á síðasta ári, skömmu eftir að hann sló 31 árs gamalt Íslandsmet í kringlukasti með því að þeyta henni 69,35 metra.
Guðni Valur stefnir ótrauður á að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan sem fara fram frá 23. júlí til 8. ágúst. Hann hefur til þess tíma til og með 29. júní næstkomandi.
Ólympíulágmarkið í kringlukasti er 66 metrar og er besti árangur Guðna Vals, Íslandsmetið frá því í haust, langt yfir lágmarkinu. Þar sem nú er farið í hönd nýtt keppnistímabil er 69,35 metra kast hans hins vegar ekki gilt fyrir Ólympíuleika sumarsins.
Hann kveðst ánægður með byrjunina á tímabilinu á sunnudaginn. „Já ég er bara mjög sáttur. Ég hef aldrei byrjað svona vel og finnst ég eiga mikið inni. Þetta lofar góðu fyrir tímabilið,“ sagði Guðni Valur í samtali við Morgunblaðið.
Þótt hann hafi ekki náð ólympíulágmarkinu í Split og framhaldið sé að miklu leyti óráðið enn mun fjöldi tækifæra gefast til þess að ná því á næstunni. Annað mót í Króatíu er næst á dagskrá. „Það er mót í Zagreb á laugardaginn og síðan var planið að fara til Svíþjóðar helgina eftir það. Svo er ég ekki alveg viss. Ég ætla bara að keppa á þeim mótum sem mér er boðið að keppa á og reyna að forðast að fá vírusinn,“ sagði Guðni Valur.
Viðtalið við Guðna Val má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.