Arnar Pétursson úr Breiðabliki og Andrea Kolbeinsdóttir úr ÍR sigruðu í karla- og kvennaflokkum í Víðavangshlaupi ÍR sem haldið var í miðborg Reykjavíkur nú í hádeginu og urðu um leið Íslandsmeistarar í 5 km götuhlaupi.
Arnar hljóp lengri leið að marki en til stóð en honum var vísuð röng leið að markinu. Frjálsíþróttadeild ÍR hefur sent frá sér tilkynningu og harmað mistökin, sem hafi haft áhrif á Arnar og þau markmið sem hann hafði sett sér. Sigur hans var hins vegar staðfestur, sem og að hann hafi verið innan brautar.
Arnar hljóp vegalengdina á 15,23 mínútum og var þrátt fyrir mistökin 27 seskúndum á undan næsta manni, Þórólfi Inga Þórssyni, sem hljóp á 15,50 mínútum. Kristinn Þór Kristinsson frá Selfossi varð þriðji á 15,56 mínútum.
Andrea hljóp vegalengdina á 17,16 mínútum. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir úr UFA varð önnur á 18,04 mínútum og Anna Berglind Pálmadóttir úr UFA þriðja á 18,23 mínútum.