Gamla ljósmyndin: Móttaka

Úr safni Morgunblaðsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Úrslitakeppnirnar á Íslandsmótinu í blaki eru nú í fullum gangi og hefst úrslitarimma HK og Aftureldingar um Íslandsmeistaratitil kvenna til að mynda í dag í Fagralundi. 

Fyrst var keppt um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki veturinn 1973-1974 og þá fagnaði Ungmennafélag Biskupstungna sigri. Íslandsmót karla hófst nokkrum árum fyrr eða veturinn 1969-1970 og ÍS varð fyrsta Íslandsmeistaraliðið. 

Meðfylgjandi mynd er tekin í nóvember 1976 eða á áttunda keppnistímabilinu í sögu Íslandsmótsins. 

Myndin er úr leik Víkings Reykjavíkur og Ungmennafélags Laugdæla í íþróttahúsi Hagaskóla. Þessi skemmtilega mynd er ekki merkt ljósmyndara í safni blaðsins. 

Sá sem hefur nýlokið við að skutla sér á boltann í móttökunni er Páll Ólafsson leikmaður Víkings en í baksýn má einnig sjá Böðvar Helga Sigurðsson sem virðist við öllu búinn. 

Páll Ólafsson lék 12 A-landsleiki fyrir Íslands hönd í íþróttinni og Böðvar Helgi Sigurðsson lék 13 A-landsleiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert