Afturelding tryggði sér oddaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki með því að sigra HK, 3:1, í öðrum úrslitaleik liðanna að Varmá í kvöld.
HK vann fyrsta leikinn í Fagralundi, 3:1, þannig að liðin eru nú jöfn með sinn vinninginn hvort. Hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn fer því fram í Fagralundi á laugardaginn kemur, 22. maí, klukkan 14.
HK byrjaði betur í kvöld og vann fyrstu hrinuna 25:22. Afturelding jafnaði með því að vinna aðra hrinu 25:21 og náði síðan undirtökunum með 25:17 sigri í þriðju hrinu. Í þeirri fjórðu komst HK í 12:5 en Afturelding jafnaði. HK komst yfir á ný, 22:21, en Afturelding skoraði fjögur síðustu stigin, vann fjórðu hrinuna 25:22 og leikinn þar með 3:1.