Framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) segir að ákvörðun um að veita íslenska Eurovision-hópnum undanþágu í bólusetningu hafi komið „svolítið eins og þruma úr heiðskíru lofti“ fyrir afreksíþróttafólk sem þarf að ferðast utan en hefur enn ekki hlotið forgang í bólusetningu, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um slíkt.
„Þetta vakti ákveðna gremju innan íþróttahreyfingarinnar, ekki síst hjá sérsamböndunum sem hafa verið í þessum alþjóðlegu verkefnum. Það hefur verið alveg yfirlýst hjá okkur öllum að óska ekki eftir því að fara fram fyrir viðkvæma hópa eða heilbrigðisstarfsfólk en nú er hafin mun víðtækari bólusetning og við höfum bara verið að bíða eftir því að fá að vita hvenær komi að okkur,“ segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.
Íþróttahreyfingin hefur óskað eftir því síðan í októbermánuði að afreksíþróttafólk sem þarf að fara utan fái að komast í forgang í bólusetningu, á eftir viðkvæmum hópum og heilbrigðisstarfsfólki. Eins og mbl.is greindi frá á mánudag sótti Ríkisútvarpið um undanþágu fyrir Eurovison-hópinn sem fékk í kjölfarið að komast í bólusetningu áður en hann fór til Rotterdam.
„Þetta kom svolítið eins og þruma úr heiðskíru lofti að þarna hafi verið veitt undanþága fyrir ákveðið keppnislið,“ segir Líney.
Eins og greint var frá í morgun hafa um 150.000 manns nú lokið eða hafið bólusetningu gegn Covid-19 hér á landi og er útlit fyrir að bólusettum haldi áfram að fjölga jafnt og þétt. Líney segir að samt sem áður skipti það máli að afreksíþróttafólk sé sett í forgang í bólusetningu, sérstaklega vegna þess kostnaðar og tíma sem hlýst af því að þurfa að fara út fyrir landsteinana til þess að keppa.
Alþjóðaólympíunefndin hefur gert samkomulag við Pfizer/BioNTech fyrir íþróttafólk sem reynir nú að ná lágmarki fyrir Ólympíumót fatlaðra og Ólympíuleikana. Það fólk, um 50 manns hér á landi, fær bólusetningu í næstu og þar næstu viku. Þessi bólusetning fer fram í samráði við heilbrigðisyfirvöld.
„Við væntum þess að eiga mjög gott samstarf eftir sem áður við heilbrigðisyfirvöld og viljum líka hrósa þeim fyrir það hvernig okkur hefur gengið í einu og öllu,“ segir Líney.