Hamar og KA leika um Íslandsmeistaratitilinn

Jakub Madej, Hafsteinn Valdimarsson, Radoslaw Rybak og Wiktor Mielczarek eru …
Jakub Madej, Hafsteinn Valdimarsson, Radoslaw Rybak og Wiktor Mielczarek eru komnir í úrslit með liði Hamars. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Það verða Hamar og KA sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitil karla í blaki á næstu dögum en liðin höfðu betur í seinni undanúrslitaleikjum sínum gegn Vestra og HK í kvöld.

Hamar vann Vestra 3:1 í Hveragerði og hafði unnið fyrri leikinn á Ísafirði með sama mun. Vestanmenn unnu fyrstu hrinuna 25:22 en Hamarsmenn, sem urðu bikarmeistarar í vetur, svöruðu því á sannfærandi hátt, unnu næstu þrjár 25:17, 25:11 og 25:18, og leikinn þar með.

KA vann HK 3:1 í Fagralundi í Kópavogi og hafði unnið fyrri leikinn á Akureyri með sama mun. KA náði undirtökunum með því að vinna fyrstu tvær hrinurnar, 25:20 og 25:19. HK vann þriðju hrinuna 25:23 en KA þá fjórðu 25:23, og þar með voru úrslitin ráðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert