Róbert Ísak Jónsson hafnaði í fjórða sæti og Már Gunnarsson í sjöunda sæti þegar keppt var til úrslita í greinum þeirra á Evrópumeistaramóti IPC á portúgölsku eyjunni Madeira í kvöld.
Róbert vann til bronsverðlauna því gestakeppandi frá Brasilíu kom fyrstur i mark.
Róbert Ísak varð þriðji í undanrásunum í 200 metra fjórsundi í flokki SM14 í morgun á 2:16,78 mínútum. Hann gerði betur í kvöld, synti á 2:14,85 mínútum, en Íslandsmet hans í greininni er 2:14,16 mínútur. Það dugði þó bara í fjórða sætið í úrslitasundinu. Gabriel Bandeira frá Brasilíu sigraði á 2:10,92 mínútum.
Már varð áttundi og síðastur inn í úrslitin í 100 metra skriðsundinu í morgun, í flokki S11, á 1:05,38 mínútu. Hann bætti tíma sinn og synti úrslitasundið á 1:04,21 mínútu og varð sjöundi en Íslandsmet hans í greininni er 1:02,96 mínúta. Evrópumeistari varð Edgaras Matakas frá Litháen sem synti á 58,83 sekúndum og hafði nokkra yfirburði.