Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ræddu sóttvarnabrot áhorfenda á íþróttakappleikjum á fundi almannavarna í dag.
Vísir greinir frá. Víðir benti á að almannavörnum hafi borist fjöldi ábendinga um sóttvarnabrot, sér í lagi í tengslum við leik KR og Vals í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í DHL-höllinni í Vesturbænum í gærkvöldi.
„Í þessum fjölmörgu skjáskotum sem við höfum fengið í morgun er ljóst að mönnum hefur hlaupið kapp í kinn í gærkvöld, og þurfa að bæta sig,“ sagði Víðir.
Hann bætti því við að greinilegt væri að úrslitakeppnirnar í körfuknattleik og handknattleik kalli á fleiri áhorfendur. „Það er greinilegt að það er mikil áskorun fyrir íþróttafélögin að standa áfram vel að sínum sóttvarnamálum eins og þau hafa gert.“
Þórólfur tók undir orð Víðis og sagði:
„Ég vil skora á íþróttafélögin að virkilega standa sig í þessu. Það var mikið ákall og mikil gagnrýni sem við fengum fyrir að loka fyrir íþróttastarfsemi, og við vorum fullvissuð um að menn gætu staðið sig. Ég held að það standi núna upp á íþróttafélögin og íþróttahreyfinguna að virkilega sýna að þetta sé hægt.“