Bandaríkjamaðurinn Christian Taylor sem vann ólympíugullið í þrístökki karla í London 2012 og Ríó 2016 getur ekki varið titilinn í Tókýó í sumar eftir að hann reif hásin í fæti á móti í Ostrava í Tékklandi í gær.
Sambýliskona hans, austurríski grindahlauparinn Beate Schrott, skýrði frá þessu á Instagram í kvöld.
Taylor hefur að mestu haft bækistöðvar í Loughborough á Englandi og búið sig þar undir Ólympíuleikana í sumar. Schrott sagði að hann hefði þegar gengist undir aðgerð en skýrði ekki frekar frá því hve lengi væri reiknað með að hann yrði frá keppni.
Taylor þótti líklegur til að vinna þriðja ólympíugullið í röð og jafnvel ná heimsmetinu af Bretanum Jonathan Edwards en það er 18,29 metrar og var sett árið 1995. Besti árangur Taylors er 18,21 metri og hann hefur haft augastað á heimsmetinu um árabil.
Auk ólympíugullanna hefur hann fjórum sinnum orðið heimsmeistari í greininni á fimm síðustu mótum, þar af þrisvar í röð.