Hækkuðu sig upp um tvö sæti

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir í Búdapest.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir í Búdapest. Ljósmynd/SSÍ/Simone Castrovillari

Dadó Fenrir Jasmínu­son keppti fyrstur Íslendinga á Evrópumeistaramótinu í sundi í 50 metra laug í Búdapest í morgun. Þá var Jóhanna Elín Guðmundsdóttir einnig á meðal keppenda áður en íslenskur hópur keppti í blönduðu boðsundi.

Dadó, úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, synti 50 metra skriðsund og kom í mark á tímanum 23,44 sekúndum. Hann endaði því í 55. sæti og hækkaði sig upp um tvö sæti. Dadó hefur áður synt ferðina á 23,12 sekúndum, gerði það árið 2018. Íslandsmetið í greininni á Árni Már Árnason frá árinu 2012, synti á 22,53.

Jóhanna Elín, einnig úr SH, synti svo 50 metra flugsund og kom í mark á tímanum 27,90 sem er 23 sekúndubrotum hægar en á Íslandsmeistaramótinu í síðasta ári, sem var hennar besti tími til þessa. Jóhanna hafnaði í 43. sæti í greininni og hækkaði sig einnig um tvö sæti. Íslandsmetið á Bryndís Rún Hansen, synti á tímanum 26,68 á EM í London árið 2016.

Að lokum var síðasta sund Íslendinga í dag blandað boðsund, grein sem Ísland hefur ekki áður synt sem landslið. Sveitina skipuðu Dadó Fenrir, Jóhanna Elín, Kristinn Þórarinsson og Snæfríður Sól Jórunnardóttir. Þau komu í mark á tímanum 3:38,67 mínútum og voru í 13. sæti af 17 sveitum.

Boðsundsveit Íslands. Dadó Fenrir Jasmínuson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Kristinn Þórarinsson …
Boðsundsveit Íslands. Dadó Fenrir Jasmínuson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Kristinn Þórarinsson og Snæfríður Sól Jórunnardóttir. Ljósmynd/SSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert