Bikarmót í hópfimleikum fór fram í íþróttahúsi Stjörnunnar í Garðabænum í dag þar sem kvennalið Stjörnunnar varð meistari sjötta árið í röð.
Kvennalið Stjörnunnar sigraði með 57,3 stigum, en liðið fékk einkunnina 22,5 á gólfi, 17,45 á dýnu og 17,35 á trampólíni. Lið Gerplu varð í öðru sæti með 55,7 stig og Stjarnan 2 í þriðja sæti með 53,25 stig.
Valgerður Sigfinnsdóttir úr Gerplu braut blað í sögu fimleika þegar hún var fyrsta kona til að keppa með þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu á hópfimleikamóti. Valgerður framkvæmdi einnig stökk á hesti sem ekki hefur áður sést á Íslandi í kvennaflokki. Stökkið heitir kasamatsu með heilli skrúfu og er framkvæmt yfir stökkhest.
Í karlaflokki mættu tvö lið frá Stjörnunni til keppni og var það lið Stjörnunnar 1 sem sigraði, með 59,0 stig. Á gólfi hlaut liðið 20,2 stig, á dýnu 19,65 stig og á trampólíni 19,15 stig. Stjarnan 2 fékk 42,6 stig.
Í karlaflokki sást einnig stökk sem aldrei hefur sést á Íslandi áður, en það var Eysteinn Máni Oddsson sem keppti með þrefalt heljarstökk með beinum líkama og hálfri skrúfu. Stökkið er eitt það erfiðasta sem við sjáum á heimsvísu, enda getan í karlaflokki á Íslandi orðin á heimsmælikvarða.