Íslensku keppendurnir hafa nú lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í sundi í 50 metra laug í Búdapest en Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppti í 400 metra skriðsundi í morgun.
Snæfríður, sem keppir fyrir Sundfélag Álaborgar í Danmörku, synti á tímanum 4:23,45 mínútum og skilaði það henni 33. sætið í keppninni. Hún hækkaði sig því um fimm sæti miðað við skráningar á mótinu. Hennar besti tími í greininni er 4:20,75 sem hún setti í síðasta mánuði.
Alls voru fimm Íslendingar á meðal keppenda á mótinu. Þrír úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, þau Dadó Fenrir Jasmínuson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Steingerður Hauksdóttir og svo Kristinn Þórarinsson úr Fjölni og Snæfríður Sól.