Leikið í Laugardalshöll í nóvember?

Karen Knútsdóttir í landsleik gegn Spáni í Laugardalshöllinni.
Karen Knútsdóttir í landsleik gegn Spáni í Laugardalshöllinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laugardalshöllin gæti mögulega orðið vettvangur landsleikja og annarra kappleikja í nóvember en í nóvember á síðasta ári urðu miklar skemmdir eftir að heitavatnslögn sprakk og vatn flæddi um húsið. 

Mbl.is hafði samband við Birgi Bárðarson, framkvæmdastjóra Laugardalshallarinnar, og spurði hann hvenær búast megi við því að hægt verði að spila landsleiki í höllinni á ný. 

„Það þorir enginn að gefa út hvenær það gæti orðið en það hefur orðið mánaðarseinkun út af útboðsgögnum. Ég veit ekki hvaða áhrif sumarleyfi og þess háttar mun hafa. Sjálfur hef ég ekki séð fyrir mér að það verði fyrr en í nóvember og held því óbreyttu ennþá. Ég er hæfilega bjartsýnn á það eins og sagt er,“ sagði Birgir en eins og staðan er núna er beðið eftir því að Reykjavíkurborg taki afstöðu til tilboða sem bárust. 

„Núna er beðið niðurstöðu vegna tilboða sem bárust í tvo þætti. Á dögunum opnaði útboð í parketið og það er í farvegi. Reykjavíkurborg tekur ákvörðun um hvaða tilboðum er tekið og vinnuferlið hefst síðan í samræmi við það.“

Martin Hermannsson í landsleik gegn Portúgal í Laugardalshöllinni.
Martin Hermannsson í landsleik gegn Portúgal í Laugardalshöllinni. mbl.is/Hari

Birgir segir að þegar leggja á nýtt parket í Laugardalshöllinni þá sé að ýmsu að huga. Til dæmis rakastigi sem er jú mismunandi eftir því hvar menn eru staðsettir á hnettinum. 

„Þegar pantað er inn parket þá getur tekið um tvo mánuði þar til það skilar sér til landsins. Og svo getur tekið allt að tvo mánuði að leggja það ef öll vinnan er tekin inn í.  En það getur verið mismunandi. Gæti tekið frá fimm til átta vikum. Í fáum tilfellum liggur íþróttagólfefni á lager hjá framleiðendum og það þarf að panta þetta sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Rakastigið er mismunandi í heiminum og hluti sem þessa þarf að passa upp á. Stundum er betra að doka við og gæta þess að hlutirnir séu í lagi heldur en að æða áfram,“ benti Birgir á. 

Eitt af því sem nú er endurnýjað í Laugardalshöllinni eru búningsklefarnir fyrir íþróttaliðin en þeir höfðu líklega lítið breyst frá því höllinni var breyt fyrir HM í handknattleik árið 1995 „Búningsklefarnir hafa farið í gegnum breytingar og verða tilbúnir í júní. Þeir eru allir endurnýjaðir og aðkoman fyrir keppnisliðin í landsleikjum og öðru slíku verður miklu betri.“

Bólusetningar hafa ekki áhrif á endurbætur

Laugardalshöllin er með frægari mannvirkjum á Íslandi meðal annars fyrir þær sakir að þar háðu Bobby Fischer og Boris Spasskí einvígi aldarinnar árið 1972. Laugardalshöllin hefur í vetur verið vettvangur bólusetninga fyrir landsmenn eins og flestir vita. Spurður um hvort þau umsvif hafi skipt einhverjum máli varðandi viðgerðirnar segir Birgir svo ekki vera. 

„Nei á engan hátt. En þau hafa notið þess að framkvæmdum seinkaði um einn mánuð. En bólusetningarnar hafa ekki haft neina seinkun í för með sér og þau laga sig að aðstæðum eins og þarf. Við reynum að samnýta eins og hægt er þjóðinni til góðs. Þetta er samfélagsverkefni og einhver þurfti að taka það að sér. Höllin hentar mjög vel. En við erum alveg komin í stemningu fyrir því að taka á móti íþróttum aftur þegar við losnum við veiruna. Við erum rosalega bjartsýn á að endurbæturnar takist vel og lítum næstu mánuði björtum augum,“ sagði Birgir Bárðarson í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert