Hamar úr Hveragerði vann í kvöld sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í flokkaíþrótt með því að sigra KA 3:0 í öðrum úrslitaleik liðanna á Íslandsmóti karla í blaki sem fram fór á Akureyri.
Hamar vann fyrsta leikinn á sínum heimavelli, 3:0, og hefði fengið oddaleikinn í Hveragerði ef til hans hefði komið. Hvergerðingar unnu því þrefaldan sigur á þessu keppnistímabili en þeir urðu áður bæði bikarmeistarar og deildarmeistarar.
Hamar vann fyrstu hrinuna eftir nokkuð jafna baráttu, 25:23, og aðra hrinu með aðeins meira öryggi, 25:19. Í þriðju hrinu náðu þeir fljótlega undirtökunum og komust í 10:5. Eftir að KA minnkaði muninn í 13:9 svöruðu Hamarsmenn því vel, 16:9, og eftir það var aldrei spurning um úrslit. Síðustu fjörbrot KA-manna voru að minnka muninn úr 23:14 í 24:19 en lokatölur urðu 25:19 og meistaratitillinn þar með í höfn.