Blakkonurnar Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir hafa gert afar góða hluti í strandblaki í Danmörku að undanförnu.
Mótaröð sumarsins 2021 er þegar farin af stað í Danmörku en fyrir rúmri viku tóku þær stöllur þátt í Århus Challenger-mótinu og unnu glæstan sigur. Mótið var það fyrsta sem liðið tók þátt í síðan heimsfaraldurinn skall á og því kærkominn sigur fyrir stelpurnar.
Um helgina var svo komið að Copenhagen Master og þar sem þær unnu mótið í Århus léku stelpurnar í efstu deild. Master-mót sumarsins eru þau stærstu og gefa flest stig í stigakeppni sumarsins. Berglind og Elísabet mættu danska landsliðsparinu Line Trans Hansen og Clöru Windeleff sem voru fyrirfram taldar sigurstranglegastar á mótinu. Stelpurnar töpuðu þeim leik en komust þó í undanúrslitin þar sem liðin mættust öðru sinni.
Í undanúrslitaleiknum unnu Berglind og Elísabet 2:1 sigur og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum. Þar gerðu þær sér lítið fyrir og unnu hitt danska landsliðsparið 2:0 sem tryggði þeim því sigur á öðru mótinu í röð. Næst á dagskrá er Master-mót í Odense sem fer fram strax næstu helgi.
Í byrjun júní halda tvö íslensk kvennalið til Skotlands þar sem þau taka þátt í alþjóðlegu móti. Berglind og Elísabet eru annað þeirra en Thelma Dögg Grétarsdóttir og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir taka einnig þátt fyrir Íslands hönd.