Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason er á þröskuldi þess að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.
Guðni keppti á móti í Vaxjö í Svíþjóð í gær og kastaði kringlunni 65,39 metra. Mjög gott kast hjá Guðna en 61 cm frá lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Simon Petterson kastaði 69,48 metra á mótinu og heimsmeistarinn Daniel Ståhl kastaði 69,11 metra en Vésteinn Hafsteinsson þjálfar þá báða.
Guðni kastaði langt yfir 66 metrana seint á síðasta ári þegar hann setti glæsilegt Íslandsmet en þá var tímabilið þar sem hægt var að reyna við lágmarkið ekki hafið.
Guðni heldur áfram að reyna við lágmarkið og keppir næst í Gautaborg.
Frjálsíþróttasambandið greinir frá því að Mímir Sigurðsson úr FH hafi bætt sig gríðarlega í kringlukasti á kastmóti hjá ÍR. Hafi Mímir náð að rjúfa 60 metra múrinn og kastað 60,32 metra. Mímir bætti sig um heila fimm metra en hans besti árangur var fram að þessu 55,54 metrar.