Íslendingarnir óstöðvandi í Danmörku

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir í baráttu.
Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir í baráttu. Ljósmynd/Kim Leerskov

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir tóku um helgina þátt í Odense Master-mótinu í strandblaki en þær búa báðar og æfa í Odense. Þær ætluðu sér því sigur á heimavelli og fór mótið vel af stað hjá þeim. Blakfrettir.is greina frá þessu.

Fyrstu tveir leikirnir fóru fram á laugardag og liðið vann þá báða mjög sannfærandi. Í dag fóru svo fram undanúrslit og úrslit en í undanúrslitaleiknum voru andstæðingarnir Cecilie Køllner Olsen og Sofia Nørager Bisgaard.

Berglind og Elísabet byrjuðu vel í undanúrslitaleiknum og unnu fyrstu hrinuna 21:16 en eftir æsispennandi lokakafla náðu Olsen og Bisgaard að knýja fram oddahrinu með því að vinna 25:27. Berglind og Elísabet voru hins vegar mun sterkari í oddahrinunni og unnu hana 15:7 og komust fyrir vikið í úrslit á þriðja mótinu í röð. Í úrslitunum biðu þeirra æfingafélagar íslensku stelpnanna, danska landsliðsparið Line Trans Hansen og Clara Windeleff.

Þessi sömu lið mættust í undanúrslitunum í Kaupmannahöfn um síðustu helgi og hafa leikir liðanna verið skemmtilegir og afar spennandi. Leikurinn í dag var engin undantekning en íslensku stelpurnar unnu fyrstu hrinuna 21:17. Þær dönsku svöruðu á sama hátt og unnu aðra hrinuna 21:17 svo aftur fóru Elísabet og Berglind í oddahrinu. Þar unnu þær 15:9 og tryggðu sér sigurinn á Odense Master. Þær hafa því unnið öll þrjú mótin síðan tímabilið þeirra hófst fyrr í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka