ÍR-PLS og Valkyrjur Íslandsmeistarar

ÍR-PLS er Íslandsmeistari karla.
ÍR-PLS er Íslandsmeistari karla. Ljósmynd/Keilusamband Íslands

Karlalið ÍR-PLS tryggði sér í gærkvöldi Íslandsmeistaratitil karla í keilu er það lagði KFR-Stormsveitina í þriðju og síðustu viðureign liðanna um titilinn. ÍR-PLS náði 28 stigum gegn 14. Meðalskor ÍR-PLS í viðureigninni var 221,4 en KFR-Stormsveitin var með 209,0.

KFR-Valkyrjur unnu hins vegar Íslandsmeistaratitil kvennalið 12. maí s.l. þegar þær lögðu lið ÍR-Buff sömuleiðis í lokaviðureign úrslitanna. Fór sú rimma 22,5 stig gegn 19,5 en ÍR-Buff leiddi viðureignina fram að lokaumferðinni þar sem KFR-Valkyrjur náðu yfirhöndinni. Samtals þarf að vinna 21,5 stig til að hampa titlinum samkvæmt mótsreglum. KFR-Valkyrjur voru með 181,2 í meðaltal á meðan ÍR-Buff var með 172,4.

Er þetta í níunda sinn sem ÍR-PLS verður Íslandsmeistari karlaliða og jafnaði liðið þar með ÍR-KLS með flesta Íslandsmeistaratitla en þar á eftir koma KFR-Lærlingar með 8 titla. KFR-Valkyrjur unnu hins vegar titilinn í ellefta sinn og hefur ekkert kvennalið unnið titilinn oftar.

Keppnin á liðnu tímabili hefur litast mikið af kórónuveirunni, vegna æfinga- og keppnisbanns. Með samstilltu átaki Keilusambandsins, félagsliða og Keiluhallarinnar mun hinsvegar takast að klára keppnistímabilið. Lokaleikur þess verður næsta laugardag þegar bikarúrslit KLÍ verða. Þar eigast við í karlaflokki lið ÍR-PLS og ÍA og í kvennaflokki eru það sömu lið og kepptu til úrslita KFR-Valkyrjur og ÍR-Buff. Hefst sá leikur kl. 10 og verður leikið í Keiluhöllinni.

KFR-Valkyrjur eru Íslandsmeistarar í kvennaflokki.
KFR-Valkyrjur eru Íslandsmeistarar í kvennaflokki. Ljósmynd/Keilusamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka