„Undirtónninn er oft svo neikvæður í fjölmiðlum,“ sagði Ásdís Hjálmsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í spjótkasti og þrefaldur ólympíufari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Ásdís keppti fyrir Íslands hönd á þrennum Ólympíuleikum, í Peking 2008, London 2012 og Ríó 2016.
Hún segir umfjöllun fjölmiðla, bæði hér á landi og erlendis, oft og tíðum óvægna í garð afreksíþróttafólk.
„Ég fékk einu sinni símtal, eftir HM í Moskvu árið 2013, þegar ég var varla búin að leggja frá mér töskuna uppi á hótelherbergi og fyrsta spurningin frá fjölmiðlum var hvað hefði klikkað?“ sagði Ásdís.
„Það sama gerðist í Ríó á Ólympíuleikunum, þá var ég líka spurð hvað hefði klikkað og af hverju ég hefði ekki kastað lengra.
Eftir að hafa útskýrt mitt mál á rólegum nótum var ég spurð af hverju ég væri svona róleg yfir þessu.
Viltu að ég fari að grenja svo þetta verði aðeins dramatískt og þið fáið fullt af áhorfum?“ sagði Ásdís meðal annars.
Viðtalið við Ásdísi í heild sinni má nálgast með því að smella hér.