Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp 200 metrana á 24,21 sekúndu á Grand Prix móti í frjálsum íþróttum í Svíþjóð í dag en fimm Íslendingar voru með á mótinu.
Guðbjörg hafnaði í 3. sæti í greininni en besti tími hennar í 200 metra hlaupi er 23,45 sekúndur frá því fyrir tveimur árum. Guðbjörg hefur ekki fengið mörg tækifæri til að keppa á sterkum mótum eftir að heimsfaraldurinn skall á.
Erna Sóley Gunnarsdóttir kastaði yfir 16 metra í kúluvarpi en hún varð í 5. sæti með 16,03 metra. Erna kastaði í febrúar 16,95 metra á háskólamóti í Bandaríkjunum sem er Íslandsmet.
Guðni Valur Guðnason kastaði lengst 57,69 metra í kringlukasti. Er það mun styttra en lengstu köst hans að undanförnu. Árangurinn í kringlukastinu bendir til þess að veður eða aðstæður hafi verið óheppilegar en heimsmeistarinn Daniel Ståhl sem Vésteinn Hafsteinsson þjálfar kastaði 67,64 og sigraði.
Sindri Hrafn Guðmundsson hafnaði í öðru sæti í spjótkasti með 76,39 metra og Dagbjartur Daði Jónsson kom rétt á eftir með 76,32 metra.