„Það var gífurlega kalt og dimmt þegar við förum að nálgast toppinn,“ sagði Everest-farinn Heimir Fannar Hallgrímsson í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Heimir Fannar og Sigurður Bjarni Sveinsson náðu á topp Everest, hæsta fjalls heims, 24. maí eftir þó nokkur áföll á leið sinni á tindinn.
Upplifun þeirra á toppnum, sem er í 8.849 metra hæð, var ekki eins og þeir höfðu reiknað með en þeir ákváðu að klífa fjallið í október 2020.
„Við vissum af tveimur látnum göngumönnum þarna við toppinn. Annar þeirra hafði látist 12. maí og hinn 19. maí og það var sérstök upplifun að klöngrast fram hjá þeim.
Annar þeirra lá utan í klettaveggnum og maður nánast rann á hann. Þetta var ótrúlega óþægilegt því manni leið eins og maður væri að trufla einhvern grafreit,“ sagði Heimir.
„Þetta var rosalega sérstakt og tunglið sem dæmi var rautt þarna á þessum tímapunkti,“ bætti Sigurður við.
„Aðstæðurnar voru mjög drungalegar og maður virkilega fann það að fólk hafði látist á þessum slóðum,“ sagði Sigurður meðal annars.
Viðtalið við Heimi og Sigurð í heild sinni má nálgast með því að smella hér.