Tilfinningalaus á toppi Everest

„Það var magnað að standa á toppi veraldar en því fylgdi engin ofsagleði eða hamingja,“ sagði Everest-farinn Sigurður Bjarni Sveinsson í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sigurður Bjarni og Heimir Fannar Hallgrímsson náðu á topp Everest, hæsta fjalls heims, 24. maí og urðu þar með tíundi og ellefti Íslendingurinn til þess að klífa fjallið.

Gangan, sem var bæði löng og ströng, gekk ekki áfallalaust fyrir sig og það hafði áhrif á þá félaga þegar komið var á toppinn í 8.849 metra hæð.

„Við föðmuðumst og gáfum hvor öðrum fimmu en svo fórum við beint í það að huga að niðurleiðinni,“ sagði Sigurður.

„Það má ekkert út af bregða í svona aðstæðum og þetta snerist fyrst og fremst um að halda einbeitingu. Upplifunin var allt allt öðruvísi en ég var búinn að ímynda mér og ég var það einbeittur á að koma mér niður að ég man ekkert eftir göngunni niður í búðir 4,“ bætti Heimir við.

„Ég var í raun bara hálftilfinningalaus á toppnum,“ sagði Sigurður meðal annars.

Viðtalið við Heimi og Sigurð í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert