Mættum of linir til leiks

Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttu við Ragnar Braga Sveinsson fyrirliða …
Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttu við Ragnar Braga Sveinsson fyrirliða Fylkis í Árbænum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Hallgrímur Mar Steingrímsson, sóknarmaðurinn öflugi hjá KA-mönnum, var svekktur með frammistöðu liðsins í leik þess gegn Fylkismönnum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Fylkismenn náðu þar góðum 2:1 heimasigri, og segir Hallgrímur að norðanmenn hafi mætt of linir til leiks. 

„Mér fannst við lélegir, það var enginn kraftur í okkur og við unnum ekki nógu vel til baka,“ segir Hallgrímur Mar og bætir við að Fylkismenn hafi fengið allt of oft að halda í skyndisóknir, og hefðu þeir hæglega getað bætt við mörkum. „Ég skil ekki hvernig við getum mætt svona til leiks þegar það er svona mikið undir,“ segir Hallgrímur Mar. 

Hallgrímur segir að boltinn hafi gengið allt of hægt milli manna í fyrri hálfleik, og að Fylkismenn hafi legið vel til baka og sótt hratt. „Við ætluðum fyrst og fremst að halda hreinu í seinni hálfleik og ná að jafna og vinna leikinn, en einhvern veginn mætum við ekki nógu stemmdir í hálfleikinn,“ segir Hallgrímur, sem skoraði engu að síður  mjög laglegt mark í stöðunni 2:0, þar sem skot hans fór af varnarmanni í háum boga yfir markmann Fylkis. 

„Það var kannski smá heppnisstimpill yfir markinu, en svo náðum við ekki að fylgja því nægilega vel eftir, þeir ná of mörgum skyndisóknum og hefðu getað bætt við áður en ég fæ skallann í stöngina,“ segir Hallgrímur Mar, en hann komst einna næst því að jafna leikinn á 86. mínútu. Hallgrímur segir ljóst að KA-menn þurfi að laga ýmislegt fyrir næsta leik, sem verður gegn HK á heimavelli. 

Þetta verður fyrsti leikur KA-manna á Akureyri í sumar. „Við höfum ekki tapað þar heillengi, þannig að við verðum bara að halda því áfram,“ segir Hallgrímur Mar að lokum. „Þetta er ekki búið þó við höfum tapað þessum leik, við verðum bara að halda áfram og safna fleiri stigum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert