Júlían hrikalegur á EM í Plzeň

Þriðja sæti í yfirþungavigt á EM á sunnudaginn eftir 1.105 …
Þriðja sæti í yfirþungavigt á EM á sunnudaginn eftir 1.105 kg í samanlögðu, Toyota Yaris vegur 1.095. Júlían er lengst til hægri af verðlaunahöfum. Ljósmynd/Facebook-síða Júlíans

Kraftlyftingamaðurinn öflugi úr Breiðabliki, Júlían J. K. Jóhannsson, gerði góða för á Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum í Plzeň í Tékklandi á sunnudaginn og stillti sér upp á verðlaunapalli fyrir þriðja sæti í yfirþungavigt, +120 kílógramma flokki, þar sem hann reif upp 1.105 kg í samanlögðu, 400 í hnébeygju, 315 í bekkpressu og 390 í réttstöðulyftu, en Júlían vigtaðist 158 kg inn í sinn flokk.

„Ég er í raun búinn að vera að búa mig undir þetta mót í 21 mánuð,“ sagði Júlían í spjalli við mbl.is í gærkvöldi, mínútum fyrir borðkall í flug heim frá Plzeň, en blaðamaður staddur á aðalbrautarstöðinni í Ósló með ískrandi lestir allt um kring og óstöðvandi kjaftagang í hátölurum. Viðtalið skilaði sér þó óbrjálað á upptöku.

Efsti mjaðmaliður niður fyrir hné

„Þetta er í rauninni fyrsta stórmótið sem ég keppi á síðan í lok árs 2019 út af þessu ástandi öllu [kórónutengdu] svo þú mátt trúa því að eftirvæntingin var mikil,“ segir nýbakaður bronsmaður í yfirþungavigt hress í bragði. „Auðvitað eru búnir að vera furðulegir tímar í þessu eins og öllu. Þetta mót átti að vera í maí núna og það átti líka að vera í maí í fyrra, en er loksins haldið núna í ágúst,“ segir kraftlyftingamaðurinn.

„Seint hefði Gunnar á Hlíðarenda runnið undan hvítum mörvamba af …
„Seint hefði Gunnar á Hlíðarenda runnið undan hvítum mörvamba af Álftanesi,“ sagði Reinarbóndinn Jón Hreggviðsson við Sigurð Snorrason böðul í Íslandsklukkunni. Líklega hefðu þó runnið tvær grímur á Gunnar hefði hann staðið andspænis hátt í 200 kílógrömmum víkingsins úr Breiðabliki. Ljósmynd/Facebook-síða Júlíans

Auðvitað stefndi Júlían ótrauður á gullið og segir þriðja sætið hafa skilið eftir tilfinningar í báðar áttir þótt auðvitað sé hann ánægður. „Það er gott að komast á pallinn aftur. Mótið vinnst á 1.132 og hálfu kílói og ég reyni við 1.133 kíló,“ segir hann frá. „Ég fékk ógilda hnébeygju upp á 420 kíló, en svo missi ég 420 og hálft kíló í réttstöðunni.“ En hvað skyldi hafa valdið ógildingunni í beygjunni?

„Ég fór ekki nógu djúpt. Í hnébeygju þarf að fara niður þannig að efsti mjaðmaliðurinn fari niður fyrir hné og þarna tókst mér það bara ekki,“ segir Júlían.

Hann kveður það eðlilega hafa verið sérstakt að búa sig undir eitt mót í hátt í tvö ár undir járnhæl kórónuveirunnar. Lokaaðflugið hafi þó verið 20 vikur þótt heildarundirbúningurinn hafi staðið allt faraldursskeiðið. „Þarna var maður bara með þetta mót í huga allan þennan tíma. Ég hef ekki getað keppt neitt úti og var í raun bara að dusta rykið af keppnisbúnaðinum, svo ekki sé minnst á að ég var fimmtán til tuttugu kílóum undir minni venjulegu þyngd á þessu móti þar sem ég eignaðist barn sem ég hef verið að hlaupa svolítið mikið á eftir,“ segir risinn viðkunnanlegi og getur ekki varist hlátri.

Júlían og Ellen Ýr með afkvæmi sitt sem án efa …
Júlían og Ellen Ýr með afkvæmi sitt sem án efa mun handleika bekkpressustöngina sem tannstöngul er fram líður. Júlían var vel undir sinni mestu þyngd á EM um helgina eftir að hafa hlaupið dálítið á eftir barni sínu undanfarið. Ljósmynd/Facebook-síða Júlíans

Þungar lyftur og langar æfingar

Hvernig undirbúa keppnismenn á heimsmælikvarða í „pávernum“ þá stórmót, stálið hlýtur að taka þann toll sem seint mun jafnaður meðan moldir og menn lifa.

„Þetta eru bara þungar lyftur og langar æfingar. Maður bara keyrir sig út á mjög skynsaman og skipulagðan hátt ef svo mætti segja,“ svarar Júlían. „Þetta eru langar æfingar, yfirleitt þrisvar og stundum fjórum sinnum í viku og þá alveg þrír og upp í fjórir tímar hver æfing. Ég æfi þarna hjá Auðuni Jónssyni,“ bætir hann við og nefnir hið goðsagnakennda „Kópavogströll“, lífseigt viðurnefni Auðuns, en fáir fara í skó kraftlyftingamanna þegar kemur að viðurnefnum í sportinu. Hver man ekki annars eftir Sigfúsi Fossdal, eða „Fúzilla“, Kára „ketti“ Elíssyni og Palla fermetra svo einhverjir séu nefndir?

Gleymir ekki mömmu

Júlían færir Auðuni þakkir á Facebook-síðu sinni eftir EM í Plzeň, en vanrækir þar ekki kvenpeninginn heldur, enda gömul sannindi og ný að á bak við hvern vel heppnaðan mann standi kona. Þakkar Júlían þar konu sinni, Ellen Ýri, og auðvitað mömmu, Petrínu Rós Karlsdóttur, seint verða mæður ofmetnar.

Júlían segir stemmninguna í kraftlyftingum á Íslandi góða í dag, töluverða nýliðun og „almenna vitundarvakningu um gagnsemi þess að lyfta lóðum“ eins og hann orðar það af stakri mælsku. „Maður hefur líka séð nýliðun úr öðrum hópum en steríótýpan segir til um,“ bætir hann við og nefnir fólk með bakgrunn í krossfimi (e. crossfit) og fleiri greinum sem sé ánægjulegt að sjá.

Spurður nánar út í strandhöggið í Plzeň kveður Júlían ýmislegt á mótinu hafa farið þannig að hann hafi ekki haft stjórn á því sjálfur. „Þarna var margt sem féll ekki með mér, en auðvitað er ég rosalega ánægður með þetta. Bara að komast út að keppa og vera í góðum félagsskap, þarna var hörkugott lið og það er bara æðislegt,“ segir Júlían sem á að baki þrjú þriðju sæti á heimsmeistaramótum, 2017, 2018 og 2019, og er ekki örgrannt um að kalla megi eftirtektarverðan árangur.

Ætlar sér á Heimsleikana 2022

Og nú er einmitt komið að næsta heimsmeistaramóti í kraftlyftingum, í Stavanger í Noregi í nóvember, og rær Júlían nú öllum árum þangað auk þess að stefna á Heimsleikana. „Stefnan hjá mér er að komast á Heimsleikana næsta sumar, heimsmeistaramótin eru úrtökumót fyrir Heimsleikana, sem eru alltaf haldnir fjórða hvert ár, alltaf árið eftir ólympíuár, og ég ætla mér að komast inn á þá næsta sumar og það lítur bara vel út,“ segir Júlían J. K. Jóhannsson að lokum, þessi viðræðugóði og hamrammi kraftlyftingamaður úr Breiðabliki sem hefði sómt sér vel meðal fornsagnahetja og gerði góða för á EM á sunnudaginn, en mbl.is mun að sjálfsögðu hafa vökult auga á hólmgöngu hans í Stavanger í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert