Berskjöldun er ekki veikleiki

Naomi Osaka segist hafa glímt við mikinn félagskvíða eftir að …
Naomi Osaka segist hafa glímt við mikinn félagskvíða eftir að hún vann sitt fyrsta risamót í tennis árið 2018. Hún er í öðru sæti heimslistans en hefur átt erfitt upp á síðkastið í kjölfar þess að hún dró sig úr leik á Opna franska meistaramótinu í sumar. AFP

„Það er mjög misjafnt hvernig íþróttamenn upplifa pressu,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og deildarforseti íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík. „Það fer eftir þeirra eigin viðhorfum og persónuleikagerð, umhverfi, á hvaða stigi þeir keppa og á hvers konar móti.“

„Rannsóknir hafa sýnt að þegar stressið er mikið hafa íþróttamenn tilhneigingu til að æfa meira. Það er ekki endilega gott,“ segir Hafrún en rannsóknir hafa einnig sýnt að hátt hlutfall ólympíufara sé á mörkum ofþjálfunar. „Ég held að fólk sem hefur ekki komið á Ólympíuleika og hefur ekki upplifað stærðina á viðburðinum geti ekki skilið pressuna sem þeim fylgir.“

Íþróttamenn glíma ekki bara við andleg vandamál í tengslum við keppni heldur einnig önnur sem tengjast íþróttinni ekki beint. Þar getur íþróttamennskan þó þvælst fyrir, því á slík vandamál er oft litið sem veikleikamerki.

„Margt bendir til þess að íþróttamenn séu ólíklegri til að leita sér hjálpar,“ segir Hafrún. Hún bendir á meistararitgerð Richards Eiríks Thähtinen, aðjunkts við Háskólann á Akureyri, frá árinu 2017 þar sem hann, undir hennar leiðsögn, rannsakaði vilja íþróttamanna á Íslandi til að leita sér hjálpar í samanburði við annað fólk.

Ekki var aðeins skoðaður almennur munur á íþróttamönnum og samanburðarhópi, sem í þessu tilfelli voru háskólanemar, heldur einnig einblínt á þá hópa sem þurfa á hjálp að halda. „Við skoðuðum þetta með tilliti til kvíða- og þunglyndiseinkenna og almennrar vanlíðunar,“ segir Richard. „Við vildum sjá hvort munur væri innan þess hóps sem sýnir þau einkenni á milli íþróttamanna og háskólanema.“

Richard bendir á að lítill hópur hafi verið skoðaður en niðurstöðurnar bendi til þess að þunglyndar konur í íþróttum séu sá hópur sem er með minnst áform um að leita sér aðstoðar. Þessar niðurstöður komi heim og saman við rannsóknir á hermönnum erlendis. Herinn er mjög karllægur heimur og virðist sem konur í þeim geira finnist þær þurfa að hafa enn þykkari skráp en karlarnir. „Það gæti útskýrt niðurstöður okkar. Að konur reyni að uppfylla staðalímyndina um ofurkonuna,“ segir Richard.

Hann segir þó að aðrar rannsóknir bendi til þess að karlar almennt og þá sérstaklega íþróttamenn séu ólíklegri til að leita sér aðstoðar en aðrir. „Karlarnir eru almennt taldir áhættuhópurinn.“

Berskjöldun skiptir sköpum

Spurður um afleiðingar þess að íþróttamenn leiti sér ekki hjálpar segir Richard það geta leitt til þess að þeir endi í kulnun og yfirkeyri sig. „Það hefur sést að íþróttafólk sem glímir við geðheilsuvandamál er líklegra til að lenda í slysi eða meiðslum á æfingu, þótt við vitum ekki af hverju. Það gæti auðvitað verið að þau sem meiðast verði þunglynd en geðheilsa fólks hefur verið mæld fyrir fram og svo skoðað hverjir meiðast,“ segir Richard en sama niðurstaða fæst þá.

Íþróttaaðdáendur og samfélagið í heild sinni gerir oft óraunhæfar kröfur til íþróttamanna. Séu þeir frábærir í sinni grein, hljóti og eigi allt annað að vera í góðu standi líka. Sú er oft ekki raunin. „Við horfum á íþróttafólk í sjónvarpinu og þetta verður mjög ópersónulegt. Þetta er svolítið eins og að horfa á kvikmynd eða eitthvað slíkt. Þá gerir fólk oft óraunhæfar kröfur,“ segir Richard.

Sama má segja um aðgengi að íþróttamönnum, það á að vera svo mikið. „Það er auðvitað ekki raunhæft eins og við sáum með Naomi Osaka,“ segir Richard, en hún dró sig eins og frægt er orðið úr leik á Opna franska meistaramótinu í tennis því hún sá sér ekki fært að mæta á blaðamannfundi er hún reyndi að ná tökum á félagskvíða. „Í heimildaþáttunum um hana [á Netflix] má sjá hvað það er mikið af streituvöldum í lífi hennar sem hafa ekkert með tennis að gera.“

Margrét Lára Viðarsdóttir, sálfræðingur og fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, segir það ekki eiga alltaf við að heilbrigður líkami geymi heilbrigða sál. „Íþróttamenn eru þverskurður af samfélaginu. Það eru íþróttamenn sem lenda í erfiðum aðstæðum innan vallar og utan og fólk hefur misgott streituþol óháð því hvort það er íþróttafólk eða ekki. Íþróttamönnum líður illa eins og hverjum öðrum,“ segir hún.

Í B.Sc.-ritgerð sinni í íþróttafræði frá árinu 2015 rannsakaði Margrét Lára líðan atvinnumanna í boltaíþróttum á Íslandi. Niðurstöður sýndu að væg og miðlungs kvíða- og þunglyndiseinkenni voru algengari meðal atvinnumannanna en íslenskra háskólanema.

„Það að berskjalda sig og viðurkenna að sér líði illa er ekki veikleiki. Auðvitað hefur viðhorfið í íþróttunum verið að það sé veikleikamerki, en fyrir mér er þetta styrkleiki. Að viðurkenna að sér líði illa er svo stórt skref í að ná að lokum bata,“ segir hún.

Þá segir Margrét Lára það skipta sköpum að þekktir íþróttamenn, bæði hér heima og erlendis, hafi stigið fram og sagt frá sinni glímu við andleg veikindi. „Þá finnur fólk að það er ekki eitt ef því líður illa líka.“

Tómarúm sem myndast

Oft eru það endalok ferilsins og lífið sem tekur við sem reynist íþróttamönnum hvað erfiðast. Það virðist eitthvert tómarúm myndast hjá þeim þar sem einn stærsti þáttur lífs þeirra, sá sem sjálfsmyndin byggist oft á, hefur liðið undir lok.

Að sögn Hafrúnar eru það mikil viðbrigði fyrir íþróttamenn þegar þeir hætta enda bróðurpartur tíma þeirra sem fer í æfingar og keppni. „Þú hættir að vera íþróttamaður og ert fljótur að gleymast. Þá verður brotnar sjálfsmynd hjá sumum,“ segir hún.

„Á Ólympíuleikum hafa verið sérstök tjöld til að höfða til þeirra sem eru að hætta eftir leikana, enda margir sem gera það,“ segir Hafrún en íþróttamennirnir eru þá hvattir til þess að leita sér aðstoðar. „Þetta er svo rosalega mikil breyting á lífinu.“

Margt spilar þó inn í hvernig fer hjá fólki. „Hvort íþróttamennirnir séu búnir að mennta sig, hafi eitthvert plan og að einhverri vinnu að hverfa og hvort þeir séu sáttir eða ósáttir við hvernig ferillinn endaði,“ segir Hafrún.

Margrét Lára segist bæði hafa fundið það sjálf og séð hjá öðrum að tómarúm myndist þegar ferillinn endar. „Það er allt búið að snúast um þessa íþrótt. Þú sefur, borðar, hittir börnin þín eftir því hvenær þú æfir og keppir. Og svo er þetta sem hefur skilgreint þig í mörg ár tekið frá þér,“ segir hún.

„Maður þarf svolítið að finna hver maður er upp á nýtt. Ég held að það sé hjálplegt að búa í haginn fyrir endalok ferilsins en það er samt erfitt,“ segir Margrét Lára. „Það þarf að hjálpa íþróttamönnum miklu meira með undirbúninginn fyrir þetta. Þeir renna út á samningi og svo er þetta bara búið. Það er ekkert utanumhald og enginn að pæla í þér sem manneskju eftir að samningi lýkur. Þetta er harður heimur og íþróttamenn standa mikið til á eigin fótum.“

Nánar er fjallað um andlega heilsu íþróttamanna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert