Tólfan ætlar að þegja í upphafi leiks

Tólfan skorar á þjóðina alla að mæta á völlinn.
Tólfan skorar á þjóðina alla að mæta á völlinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tólfan fordæmir allt ofbeldi og vill á sama tíma koma á framfæri þakklæti til þeirra einstaklinga sem fram hafa komið og sýnt gríðarlegan kjark með því að segja sínar sögur,“ segir í facebookfærslu frá Tólfunni, stuðningsmannafélags íslenska landsliðsins.

Tólfan segist vilja koma því skýrt á framfæri að lykilsetning félagsins hafi alltaf verið: „Ekki vera fáviti“ og bendir á að ofbeldi sé fávitaskapur í öllum sínum myndum.

„Umræðan er hluti af stærra máli þar sem öflugt fólk - hetjur okkar tíma - þolendur ofbeldis - gerir þá einföldu og sanngjörnu kröfu að skapað verði samfélag án ofbeldis. Þöggun, meðvirkni og leyndarhyggja skulu þar með heyra sögunni til,“ segir í færslunni. 

„Í raun er einfaldlega krafist heilbrigðara og fallegra samfélags. Krafist er byltingar. Knattspyrnuheimurinn hefur, vegna hegðunar leikmanna liðsins og óviðunandi viðbragða knattspyrnuyfirvalda, orðið miðpunktur þessarar byltingar. Eðlilega.“

Hvetja fólk til að mæta með mótmælatákn

Fram undan eru þrír mikilvægir leikir hjá landsliðinu. Ísland á leik gegn Rúmeníu 2. september, Norður-Makedóníu 5. september og gegn Þjóðverjum 8. september.

Tólfan skorar á þjóðina að mæta á völlinn og styðja við liðið.

„Fram að 12. mínútu leiksins mun Tólfan sitja og engir söngvar koma frá stúkunni, þeir sem kjósa og eiga, bera bönd Bleika Fílsins og vera með F O húfur á komandi leikjum og hvetjum við þá sem eiga slíkt að koma með á leikinn,“ segir í færslunni.

Færsluna í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert