Uppselt er á leik íslenska karlalandsliðsins sem fer fram gegn Þjóðverjum 8. september næstkomandi á Laugardalsvelli en miðasalan hófst klukkan 12 í dag.
Þetta kemur fram á vef Knattspyrnusambands Íslands.
Vegna sóttvarnaráðstafana var takmarkaður fjöldi miða í boði. Enn er þó hægt að kaupa miða á leiki Íslands gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu sem fara fram dagana 2. og 5. september.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðsins, sagðist í dag á blaðamannafundi ekki vilja tjá sig um ákvörðun stjórnarinnar, sem hefur meðal annars meinað Kolbeini Sigþórssyni að spila næstu þrjá landsleiki.
Leikirnir hafa að miklu leyti fallið í skugga þeirrar ringulreiðar sem ríkir nú í höfuðstöðvum Knattspyrnusambandsins en KSÍ hefur verið sakað um þöggun og gerendameðvirkni í málum sem hafa komið upp meðal leikmanna karlalandsliðsins.
Í gærkvöldi tók stjórn KSÍ ákvörðun um víkja til hliðar og hefur Guðni Bergsson einnig sagt upp sem formaður sambandsins. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, situr þó enn og hafa aðgerðarhóparnir Öfgar og Bleiki fíllinn boðað til mótmæla fyrir utan Laugardalsvöllinn á morgun þar sem farið verður fram á að hún stígi til hliðar.