Íslenskir keppendur gerðu það gott í þríþrautarkeppnum erlendis um helgina.
Stefán Karl Sævarsson og Hákon Hrafn Sigurðsson úr Breiðabliki tóku þátt á Evrópumeistaramótinu í járnmanni sem fór fram í Roth í Þýskalandi um helgina. Í járnmanni eru syntir 3,8 km, hjólaðir 180 km og loks hlaupið maraþon 42,2 km.
Stefán Karl keppti í aldursflokki 35-39 ára og náði 2. sæti í aldursflokknum á tímanum 8:44:26 og Hákon Hrafn keppti í aldursflokki 45-49 ára og varð einnig í 2. sæti í aldursflokknum á tímanum 8.48:04 og var einungis um mínútu frá sigurvegaranum í flokknum.
Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingar ná í verðlaun á Evrópumeistaramóti í járnmanni í þessum aldursflokkum. Sigurvegarar í keppninni urðu Anne Haug sem er núverandi heimsmeistari í greininni og Patrik Lange sem varð heimsmeistari árið 2018.
Þá keppti Fannar Þór Heiðuson í hálfum járnmanni í Varsjá í Póllandi. Í hálfum járnmanni eru syntir 1,9 km, hjólaðir 90 km og loks hlaupið hálft maraþon 21,1 km.
Fannar keppti í aldursflokki 18-24 ára og varð í 2. sæti í sínum aldursflokki á tímanum 4:04:04 en Fannar átti mjög gott hlaup í þrautinni, hljóp hálft maraþon á tímanum 1:17:36. Það er jafnframt þriðji besti tími Íslendings í hálfum járnmanni frá upphafi.