„Það var að læknisráði sem ég ákvað að byrja að hlúa að sjálfri mér og stunda hreyfingu,“ sagði Kristín Þórhallsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í kraftlyftingum, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Kristín, sem er 37 ára, byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir tveimur árum, þá 35 ára, en hún vann til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í Halmstad í Svíþjóð á dögunum.
Árið 2018 eignaðist hún sitt annað barn, Hinrik Helgason, en ári síðar greindist hann með afar sjaldgæft heilkenni, Börjeson-Forssman-Lehmann, og er hann skilgreindur sem langveikt barn í dag.
„Að vera móðir barns með fötlun og ná langt í kraftlyftingum gefur mér aukið hugrekki og sjálfsöryggi sem virkar vel bæði í lífinu og íþróttinni,“ sagði Kristín.
„Ég þurfti að byggja mig upp andlega eftir áfallið sem fylgdi því að eignast langveikt barn og ofan á þá andlegu vinnu hef ég haldið áfram að byggja í gegnum íþróttina,“ sagði Kristín meðal annars.
Viðtalið við Kristínu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.