Íslandsmeistarar SA unnu nauman 4:3-útisigur á Fjölni í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld.
Mikael Atlason kom Fjölni yfir þegar skammt var eftir af fyrstu lotu en Bjartur Gunnarsson jafnaði aðeins mínútu síðar og var staðan þegar þriðjungur var búinn því 1:1.
Leikurinn lifnaði við í annarri lotu því Jóhann Leifsson kom SA yfir eftir tæpa mínútu í lotunni. Steindór Ingason jafnaði í 2:2 þegar lotan var rúmlega hálfnuð en þeir Hafþór Sigrúnarson og áðurnefndur Jóhann sáu til þess að staðan væri 4:2 fyrir síðustu lotuna.
Úlfar Andrésson gerði leikinn æsispennandi í lokin er hann minnkaði muninn í 4:3 rúmum tíu mínútum fyrir leikslok en meistararnir héldu út og fögnuðu sigri.
SA er í toppsætinu með tíu stig, tveimur stigum á undan SR. Fjölnir er í þriðja og neðsta sæti með þrjú stig.