Svisslendingurinn Roger Federer er ekki lengur á meðal tíu efstu á heimslistanum í tennis en nýr listi var birtur í dag.
Federer er nú í ellefta sæti listans eftir að hafa fremur lítið keppt vegna meiðsla og heimsfaraldursins. Hefur hann tekið þátt í nítján mótum frá því í ársbyrjun 2020.
Fara þarf aftur til janúar 2017 til að finna dæmi um að Federer sé ekki á meðal tíu efstu á listanum. En þá missti hann úr hálft ár eftir að hafa gengist undir aðgerð.
Federer er nú að jafna sig á hnémeiðslum og mun ekki keppa aftur fyrr en á næsta ári. Hann kemur því til með að falla frekar á heimslistanum. Hann hefur alla vega verið á meðal tuttugu efstu á listanum allar götur síðan í apríl 2001 en þá var hann einungis nítján ára.
Englendingurinn Andy Murray má muna sinn fífil fegri. Hann hrapar nú úr 121. sæti listans niður í 172. sæti.
Serbinn Novak Djokovic er í efsta sæti listans hjá körlunum og Wimbledon-meistarinn Barty Ashleigh frá Ástralíu hjá konunum.