„Langar að kveikja von og vilja“

Sínum augum lítur hver silfrið er lífseigt orðatiltæki en um …
Sínum augum lítur hver silfrið er lífseigt orðatiltæki en um þetta silfur er engum blöðum að fletta og Helga Hlín sýnir verðlaunapeninginn stolt í Hollandi í dag, silfur á EM í ólympískum lyftingum. Ljósmynd/Aðsend

Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður frá Akureyri og þrautreynd kempa í ólympískum lyftingum, gerði sér lítið fyrir og hrifsaði til sín silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti í -59 kg flokki í sínu sporti í Alkmaar í Hollandi í dag þrátt fyrir meiðsli við upphitun, en Helga Hlín varð Evrópumeistari í fyrra eins og mbl.is greindi frá undir jól.

„Þetta var bara geggjað. Þetta er auðvitað fyrsta mótið sem maður mætir á, ég hef bara einu sinni mætt á mót með fólki út af þessu Covid-rugli og öll mót hafa bara verið á netinu,“ segir Helga Hlín í samtali við mbl.is í dag á meðan þau eiginmaður hennar og þjálfari, Unnar Helgason, eru að reyna að finna út hvar þau eiga að skila bílaleigubílnum sínum á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam.

„Mótið var rosalega flott og mjög gaman að hitta aðra keppendur, öll umgjörðin var mjög flott og Hollendingarnir stóðu mjög vel að þessu,“ segir Helga Hlín. „Við spiluðum ákveðna leiktækni þarna, við Unnar, en svo lenti ég í því að meiðast í upphituninni, ég reif á mér báða lófana og fór að blæða mikið úr mér, fékk djúp sár í báða lófana og þurfti að teipa mig alla sem gerir gripið mjög erfitt,“ segir þessi norðlenska valkyrja frá.

Á pallinum eftir frábæra frammistöðu í dag. „Mótið var rosalega …
Á pallinum eftir frábæra frammistöðu í dag. „Mótið var rosalega flott og mjög gaman að hitta aðra keppendur, öll umgjörðin var mjög flott og Hollendingarnir stóðu mjög vel að þessu,“ segir Helga um gestgjafana. Ljósmynd/Aðsend

Hún hafi því ákveðið að fyrsta sætið yrði greinilega ekki hennar á þessu móti og leyft ítölskum keppinauti sínum að hampa gullinu. „Við spiluðum þetta bara „save“ þannig að ég myndi þá alla vega vera örugg með annað sætið,“ játar Helga Hlín af æðruleysi hinnar sönnu keppnismanneskju. „Þetta er síðasta árið mitt í þessum flokki, ég var langelst þarna og það er bara geggjað að hafa náð öðru sætinu, en ég var langt frá mínu besta í dag og maður verður bara að kyngja því,“ nær Helga Hlín að koma frá sér áður en blaðamaður grípur fram í og spyr hvort hún sé hreinlega klikkuð að vera ekki ánægð með silfur á EM.

Helga tekur bakföll af hlátri í bílaleigubílnum á meðan þau Unnar reyna að finna út hvar þau eigi að skila honum. „Nei, ég er auðvitað ekki sátt við þetta, en við vildum frekar landa öruggu öðru sæti en að vera að taka einhverja sénsa,“ segir Helga Hlín, sem er móðir Úlfhildar Örnu Unnarsdóttur lyftingakonu sem sagði mbl.is af glæstri för sinni á HM í ólympískum lyftingum í Sádi-Arabíu fyrir rúmri viku.

Hvað með undirbúninginn fyrir EM hjá mömmu gömlu?

„Ég er búin að æfa mjög reglulega frá áramótum,“ svarar Helga, „ég var að æfa crossfit með en mér finnst ólympísku lyftingarnar mjög skemmtilegar og það kostar mikinn fókus að stefna á svona stór mót. Frá áramótum hef ég verið að æfa fimm sinnum í viku,“ segir hún og dylur ekki norðlenska harðmælið á lokhljóðið k í orðinu viku.

Unnar Helgason, besti vinur, maki og einkaþjálfari. Er hægt að …
Unnar Helgason, besti vinur, maki og einkaþjálfari. Er hægt að biðja um meira? Ljósmynd/Aðsend

„Hinir dagarnir eru engin hvíld, maður tekur alltaf létt „recovery session“ í skokk, hjólreiðar eða göngutúr, maður gerir alltaf eitthvað,“ segir Helga Hlín sem lenti í slæmu brjósklosi árið 2013, nokkuð sem sá er hér skrifar þekkir vel af eigin raun eftir tvær skurðaðgerðir hjá góðu fólki á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvoginum. „Það hefur tekið mig rosalegan tíma að komast í það form að vera með þann styrk að geta hlaupið,“ játar Helga Hlín og vill sérstaklega láta þess getið að brjósklosið hafi slegið hana frá öllum æfingum tímabilið 2013 til 2017. „Þá byrjaði ég aftur á algjöru núlli og náði mínu fyrra formi í raun bara fyrir ári. Núna er allt upp á við og ég hefði í raun aldrei átt að vera hér miðað við ástandið þetta árabil. Mig langar svo að kveikja von og vilja hjá þeim sem hafa farið jafnilla og ég, allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Helga Hlín og hlær sínum smitandi hlátri á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam.

„Þó að maður sé illa fyrir kallaður, þreyttur eftir æfingu, vinnu, lífið eða eitthvað þá er bara svo mikilvægt að gera eitthvað, bara fara í göngutúr kannski,“ segir þessi bjartsýna íþróttakona með slíkum sannfæringarkrafti að blaðamann langar til að hlaupa beint í ræktina.

Helga segir þjálfunina í ólympískum lyftingum ákaflega fjölbreytta og ekki skemmi fyrir að eiginmaðurinn Unnar Helgason sé einkaþjálfarinn. „Ég er náttúrulega orðin 49 ára, það tekur mikla vinnu að bæta sig en það er hægt og mér finnst það svo geggjað að ég er að bæta mig svo mikið í þyngdum, ég vissi ekki að það væri hægt á þessum aldri, ég þurfti að byrja upp á nýtt 2017 eftir brjósklosið og nú er ég komin langt umfram það og ég á nóg eftir, Atli Steinn, ég á nóg eftir,“ segir Helga Hlín og blaðamaður nötrar nánast af ótta.

Gallhörð keppniskona frá Akureyri lætur engan bilbug á sér finna …
Gallhörð keppniskona frá Akureyri lætur engan bilbug á sér finna á EM í Hollandi. Helga segist í samtali við mbl.is vilja blása öðrum von í brjóst eftir þrálát bakveikindi sem háðu henni lengi vel en hún sigraðist á og vel það. Allt er hægt. Ljósmynd/Aðsend

Hvað borða svona afrekskonur þá?

„Ég tek Unbroken sem er íslenskt fæðubótarefni, búið til úr laxapróteini, tek þrjá fjóra skammta af því á dag. Annars borða ég bara hollt, drekk vel af kaffi á æfingum og vatni og borða aðallega vel samsettan og hreinan mat. Svo er auðvitað rosalega gaman að setjast niður stundum og fá sér eitthvað sem er langt út fyrir öll mörk, en þannig er lífið, maður verður líka að hafa gaman,“ segir Helga Hlín Hákonardóttir undir lok stórskemmtilegs viðtals, tæplega fimmtugur íslenskur silfurverðlaunahafi á EM í ólympískum lyftingum í Hollandi í dag, kona sem sér aðeins leiðina upp á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka