Missti af leik í fyrsta skipti

Russell Wilson.
Russell Wilson. AFP

Russell Wilson, leikstjórnandi Seattle Seahawks, missti af leik í fyrsta skipti á ferlinum þegar Seattle tapaði í nótt fyrir Pittsburgh Steelers í NFL-deildinni í ameríska fótboltanum. 

Wilson meiddist á fingri í síðasta leik liðsins og fór í aðgerð. Er ekki búist við að hann verði leikfær fyrr en líður á nóvember. 

Eftir tíu ár í deildinni missti Wilson þar af leiðandi af leik í fyrsta skipti og hafði náð 149 leikjum í röð. 

Pittsburgh sigraði 23:20 eftir framlengingu og lék á heimavelli. Var staðan 20:20 að loknum venjulegum leiktíma. 

Arizona Cardinals er með bestan árangur sem af er á tímabilinu og er eina liðið sem unnið hefur fyrstu sex leikina. Fimm lið hafa unnið fimm af fyrstu sex, þar af á meðal meistararnir í Tampa Bay Buccaneers en einnig Baltimore Ravens, Dallas Cowboys, Green Bay Packers og LA Rams. 

Arizona fór í gær létt með Cleveland Browns á útivelli 37:14. 

A.J. Green skorar snertimark fyrir Arizona Cardinals í gær.
A.J. Green skorar snertimark fyrir Arizona Cardinals í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka