Hermann Maier tók við viðurkenningu í heimalandi sínu Austurríki á dögunum en þá var eftirminnilegasta íþróttaaugnablik síðustu fimmtíu ára valið.
Maier tók við viðurkenningunni á viðamiklu galakvöldi og kom við þegar hann virti fyrir sér ljósmyndir og sjónvarpsmyndir af atvikinu.
Atvikið sem um ræðir er ekki sigurstund hjá þessum kunna og sigursæla skíðakappa heldur atvik þar sem honum urðu á mistök.
Í brunkeppninni á Vetrarólympíuleikunum í Nagano hlekktist Maier á í brautinni með þeim afleiðingum að hann hentist lengst út úr brautinni og í gegnum varnargirðingar. Eflaust er atvikið ógleymanlegt öllum þeim sem á horfðu í beinni útsendingu.
Lesa má betur um atvikið í meðfylgjandi grein úr Sögustund íþróttadeildar Mbl. En rétt er að geta þess að þremur dögum síðar vann Maier mikið afrek þegar hann nældi í gullverðlaun á leikunum. Nógu merkilegt hafði þótt að hann skyldi ekki stórslasast í byltunni eða þaðan var verra.
Í rökstuðningi varðandi valið hjá Austurríkismönnum segir meðal annars að ljósmyndir af atvikinu glati ekki dramatísku gildi sínu þótt meira en tveir áratugir séu liðnir.
Hermann Maier nýtur mikilla vinsælda enda einn frægasti íþróttamaður Austurríkis og risu allir úr sætum þegar hann tók við viðurkenningunni. „Ég man nú ekki eftir þessu í smáatriðum en kalla má þetta glannaskap hjá ungum manni. Ég fór alltof geyst,“ sagði Maier meðal annars þegar hann var beðinn um að rifja atvikið upp.