Sólveig í toppsætið í Madríd

Sólveig á mótinu í Madríd um helgina þar sem hún …
Sólveig á mótinu í Madríd um helgina þar sem hún fór með sigur af hólmi. Hún dvaldi á Spáni í sumar við æfingar þar sem hún kveður aðstöðuna heima í Bretlandi ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ljósmynd/Aðsend

„Mig var farið að langa býsna mikið til að keppa eftir Covid, þar kom langt tímabil þar sem ég keppti ekki neitt. Fókusinn hjá manni er á þessum stóru mótum þar sem góð peningaverðlaun eru í boði og ég var búin að næla mér á boðsmiða á þetta mót fyrir nokkru síðan.“ Þetta segir Sólveig Sigurðardóttir sem gerði sér lítið fyrir og hafnaði í fyrsta sæti á Madrid Crossfit Championship um helgina, þar sem keppt er í crossfit, eða krossfimi eins og vinir íslenskrar tungu hafa reynt að koma á framfæri.

Keppnisgreinar í crossfit eru margar hverjar nýstárlegar, enda greinin sjálf …
Keppnisgreinar í crossfit eru margar hverjar nýstárlegar, enda greinin sjálf frekar nýleg. Oft er þar um að ræða blöndu ólíkra æfinga sem mynda svo eina keppnisgrein. Ljósmynd/Aðsend

Hlaut Sólveig 750 stig í svokölluðum Elite-kvennaflokki og röðuðu aðrir Norðurlandabúar sér í toppsætin á eftir henni, Rebecka Vitesson frá Danmörku í annað sætið, Jacqueline Dahlstrøm frá Noregi í þriðja og annar Dani, Julie Hougård, í það fjórða.

Eins og fyrr segir var Sólveigu boðin þátttaka á mótinu í Madríd og ákvað að slá til, en hún er Hafnfirðingur, búsett í Bournemouth í Bretlandi þar sem hún er hálfnuð með fjögurra ára kírópraktornám.

„Vildi bara létta mig aðeins“

„Ég byrjaði að æfa crossfit árið 2013 og var ekki búin að vera að æfa neitt þar á undan,“ segir Sólveig sem er fædd árið 1995, „ég vildi bara létta mig aðeins og líka bara hafa eitthvað gera. Crossfit var nýtt sport á þessum tíma og ekkert mál að byrja án þess að hafa einhvern sérstakan bakgrunn,“ segir hún frá.

Sólveig hlaut 750 stig í svokölluðum Elite-kvennaflokki og röðuðu aðrir …
Sólveig hlaut 750 stig í svokölluðum Elite-kvennaflokki og röðuðu aðrir Norðurlandabúar sér í toppsætin á eftir henni, Ljósmynd/Aðsend

Þær voru 30 sem öttu kappi í Madríd um helgina, þar af einn Íslendingur til auk Sólveigar, Guðbjörg Valdimarsdóttir sem hafnaði í 16. sæti. „Æfingarnar eru eiginlega samansafn af mörgum æfingum sem blandað er saman til að búa til eina æfingu,“ útskýrir Sólveig, spurð út í einstakar keppnisgreinar í krossfimiheiminum.

„Ég vann í nokkrum æfingum, ein þeirra var með hjóli og þungum hnébeygjum og önnur var að draga og ýta þungum sleða. Svo vann ég í lokaæfingunni líka sem var samblanda af hlaupi, léttri snörun, eins og í ólympískum lyftingum, og „burpees-um“,“ segir Sólveig frá og nefnir þar undir lokin æfingu sem ekki hefur reynst heiglum hent að þýða á íslensku, en burpees eru armbeygjur með hoppi á milli.

Æfir í skólanum

Sólveig segir undirbúninginn fyrir stórmót botnlausa vinnu svo sem við var að búast, en hún dvaldi á Spáni við æfingar í sumar þar sem hún er ekki fullkomlega ánægð með stöðu íþróttarinnar í Bretlandi. „Aðstaðan er bara ekkert sérstaklega góð hérna og vantar í raun bara æfingabúnað,“ segir afrekskonan, en hún er nýlent í heimalandinu þegar viðtalið fer fram og á leið heim í rútu. Hún æfir í skólanum, AECC University College, þar sem hún segir aðstöðuna þó nokkuð boðlega þrátt fyrir allt saman.

Sólveig bar sigur úr býtum í nokkrum keppnisgreinum um helgina …
Sólveig bar sigur úr býtum í nokkrum keppnisgreinum um helgina og skilaði heildarframmistaðan henni í fyrsta sætið á mótinu. Ljósmynd/Aðsend

Sólveigu hafa ekki boðist mikil tækifæri til að blanda geði við breska þjóð, eins og við er að búast þegar allt þjóðfélagið hefur verið í lamasessi og einangrun vel á annað ár.

„Við erum hins vegar mjög góður Íslendingahópur hérna sem erum vinir og umgöngumst hvert annað mikið,“ segir hún frá og kveðst stefna að flutningi til Íslands og starfsframa þar sem kírópraktor að loknu meistaraprófi eftir tvö ár, auk þess að halda áfram æfingum og keppnum í crossfit „að minnsta kosti einhver ár í viðbót,“ segir Sólveig Sigurðardóttir að lokum, afreksíþróttakona og nýbakaður meistari af Madrid Crossfit Championship-mótinu sem fram fór um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka