Ólympíufari skotinn til bana

Quinonez var einn af hæfileikaríkustu íþróttamönnum Ekvador.
Quinonez var einn af hæfileikaríkustu íþróttamönnum Ekvador. AFP

Ekvadorski spretthlauparinn Alex Quinonez var skotinn til bana í borginni Guayaquil. Quiñonez fannst látinn ásamt öðrum manni um miðnætti aðfaranótt föstudags.

Guillermo Lasso, forseti Ekvador, hefur heitið því að morðingjarnir verði sóttir til saka.

„Þeim sem myrða Ekvadora verður refsað. Við munum beita valdi,“ sagði Lasso í færslu á Twitter. 

Jennifer Lugo, ekkja Quoinonez, fyrir utan líkhúsið í Guayaquil í …
Jennifer Lugo, ekkja Quoinonez, fyrir utan líkhúsið í Guayaquil í gær. AFP

Héraðsstjóri í héraðinu þar sem Quiñonezvar myrtur tók í sama streng. 

„Það mun enginn hvílast fyrr en lögreglan hefur haft hendur í hári þeirra sem bera ábyrgð á glæpnum. Við eigum í stríði við eiturlyfjagengi sem hafa það að markmiði að leggja okkur undir sig,“ skrifaði Pablo Arosemena, ríkisstjóri Guayas-héraðs, í færslu á Twitter. Guayaquil er höfuðborg héraðsins.

Ættingjar Quiñonez í jarðarför hans í gær.
Ættingjar Quiñonez í jarðarför hans í gær. AFP

Quiñonez átti met Ekvador í 200 metra spretthlaupi en það hafði hann hlaupið á 19,87 sekúndum. Quiñonez komst í úrslit á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012 og hafnaði í sjöunda sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert