Tvenn gullverðlaun á Norðurlandamótinu

Sævar Baldur Lúðvíksson á efsta þrepi verðlaunapallsins í Espoo og …
Sævar Baldur Lúðvíksson á efsta þrepi verðlaunapallsins í Espoo og Gunnar Egill Ágústsson í silfursætinu.

Íslenskt skylmingafólk vann til tvennra gullverðlauna ásamt silfur- og bronsverðlaunum á Norðurlandamótinu í skylmingum sem fram fór í Espoo í Finnlandi um helgina.

Íslensku keppendurnir á mótinu kepptu allir með höggsverði og voru þar í fremstu röð.

Sævar Baldur Lúðvíksson varð Norðurlandameistari karla og Ísland hreppti tvö efstu sætin í greininni því Gunnar Egill Ágústsson hreppti silfurverðlaunin. Sævar vann úrslitaviðureign þeirra 15:12.

Sævar og Gunnar urðu jafnframt Norðurlandameistarar í sveitakeppni með höggsverði en með þeim í sigursveitinni voru Jakob Lars Kristmannsson og Emil Ísleifur Sumarliðason.

Anna Edda Gunnarsdóttir Smith fékk síðan bronsverðlaunin í keppni kvenna með höggsverði og var fremst Norðurlandabúa því gullið og silfrið fóru til Eistlands og Litháen.

Sævar Baldur Lúðvíksson eftir sigurinn í úrslitaleiknum.
Sævar Baldur Lúðvíksson eftir sigurinn í úrslitaleiknum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert