Jón Sigurður Gunnarsson, fimleikakappi úr Ármanni, náði bestum árangri Íslendinga á einstökum áhöldum á heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í Kitakyushu í Japan í síðustu viku þegar hann hafnaði í 23. sæti á hringjum í undankeppninni. Sjálfur kveðst hann nokkuð sáttur við árangurinn en telur sig geta gert betur.
„Ég met árangurinn bara ágætlega. Það gekk í rauninni mestallt upp og 23. sætið hljómar ágætlega en það hefði verið hægt að gera betur eins og alltaf en þetta hefði líka getað farið verr. Ég er ánægður með frammistöðuna og þetta sæti. Ég hefði verið ennþá ánægðari með topp 20 en það verður bara að nást næst,“ sagði Jón í samtali við Morgunblaðið.
Hann sagði hringina vera sitt besta áhald. „Það hefur alltaf verið svolítið þannig í gegnum tíðina en það er ekki fyrr en núna að ég er byrjaður að einbeita mér sérstaklega og alveg markvisst að hringjunum.“ Á HM í Japan fékk Jón hæstu erfiðleikaeinkunn sem íslenskur fimleikamaður hefur fengið á hringjum.
„Erfiðleikaeinkunnin snýr að æfingunum sem ég er að gera á hringjunum, sem teljast til stiga. Því erfiðari æfingar sem þú gerir því hærri verður sú einkunn, eins og heitið segir til um. Ég er búinn að vera að vinna í þessu mjög markvisst síðustu tæp tvö ár,“ útskýrði hann.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.