„Í þessar keppni ákváðu þeir að vera með stökkpall þar sem maður þurfti virkilega að taka á honum stóra sínum til að komast yfir hann,“ sagði Aníta Hauksdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í mótorsporti, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Aníta, sem er þrítug að árum, er þrefaldur Íslandsmeistari í mótorkrossi og þrefaldur Íslandsmeistari í enduro en hún hefur stundað íþróttina frá því hún var ellefu ára gömul.
Hún hefur nokkrum sinnum tekið þátt í endurokeppninni Sea to Sky í Tyrklandi sem er haldin árlega en þar kemur saman fjöldi fólks, allsstaðar að úr heiminum, sem hefur brennandi áhuga á mótorsporti.
„Það var einhver Breti þarna sem ég byrja að spjalla við í miðri keppni og eftir smá umræðu spyr hann mig hvort ég ætli að stökkva á stökkpallinum,“ sagði Aníta.
„Að sjálfsögðu ætla ég að stökkva segi ég við hann og finn það á honum að hann verður spenntari og spenntari fyrir því að láta vaða líka. Ég finn það svo á honum að hann er alveg tilbúinn í stökkið og þá skilja leiðir og ég sé hann ekki það sem eftir lifir dags,“ sagði Aníta meðal annars.
Viðtalið við Anítu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.