Þjálfarinn hafði meiri áhuga á mér en mömmu

Matthildur Óskarsdóttir með gullverðlaunin um hálsinn.
Matthildur Óskarsdóttir með gullverðlaunin um hálsinn. Ljósmynd/Kraft.is

Matthildur Óskarsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð í gær heimsmeistari unglinga í klassískri bekkpressu þegar hún sigraði í -84 kg flokki stúlkna á heimsmeistaramótinu í bekkpressu í Vilníus í Litháen.

Matthildur, sem er 22 ára gömul, er á öðru ári í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands og hefur alla tíð lagt mikla áherslu á hreyfingu en hún byrjaði að æfa kraftlyftingar þegar hún var 14 ára.

Hún æfir fimm sinnum í viku, ásamt því að fara reglulega í fjallgöngur sem er eitt af hennar aðaláhugamálum, en hún var að taka þátt á sínu öðru heimsmeistaramóti í klassískri bekkpressu í Litháen.

„Þetta er algjörlega geggjuð tilfinning og ég átti alls ekki von á þessu, farandi inn í mótið,“ sagði Matthildur í samtali við Morgunblaðið en hún álpaðist óvænt inn í íþróttagreinina á sínum tíma.

„Ég byrjaði að æfa fimleika þegar ég var fimm ára en sneri illa upp á ökklann á mér þegar ég var byrjuð í grunnskóla og gat því ekki æft íþróttina af fullum krafti eftir það. Þegar ég var fjórtán ára var móðir mín að æfa hjá kraftlyftingaþjálfaranum Ingimundi Björgvinssyni og ég ákvað að skella mér með henni á æfingu í eitt skiptið.

Að endingu hafði þjálfarinn meiri áhuga á mér en mömmu og ég tók þátt í mínu fyrsta móti sex mánuðum eftir að ég mætti á mína fyrstu kraftlyftingaæfingu,“ sagði Matthildur meðal annars.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert