Steingerður Hauksdóttir synti á tímanum 25,94 sekúndum í 50 m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug sem hófst í Kazan í Rússlandi í morgun.
Þetta er besti tími Steingerðar í greininni á árinu en hennar besti tími í greininni er 25,74 sekúndur. Steingerður hafnaði í 40. sæti.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppti einnig í morgun í sömu grein og synti á tímanum 25,99 sekúndum sem skilaði henni 41. sæti. Hennar besti tími í greininni er 25,32 sekúndur.
Þrátt fyrir góða frammistöðu komust þær ekki áfram í undanúrslit.
Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds í fyrsta sinn á mótinu í fyrramálið þegar hann keppir í 100 m bringusundi.