Fyrrverandi rúgbíspilarinn Carl Hayman hefur verið greindur með snemmbúna heilabilun, aðeins 41. árs að aldri, og leikur einnig grunur á að hann sé með langvinnan heilakvilla í kjölfar áverka (CTE), sem greinist þó aðeins við krufningu.
Nýsjálendingurinn Hayman er einn fjölmargra fyrrverandi leikmanna sem undirbúa nú í sameiningu málsókn á hendur hinum ýmsu rúgbísamböndum, þar á meðal Heimssambandinu í rúgbí, þar sem samböndin hafi ekki verndað þá nægjanlega gagnvart möguleikanum á að fá heilahristing.
„Ég eyddi fjölda ára þar sem ég hélt að ég væri að missa vitið. Það voru þessir endalausu höfuðverkir og allir þessir hlutir sem áttu sér stað sem ég gat ekki fengið mig til að skilja,“ sagði Hayman í samtali við The Bounce.
Eftir að hafa hætt að spila rúgbí fyrir sex árum hefur Hayman átt í vandræðum í einkalífinu, þar sem hann hefur glímt við áfengissýki auk þess sem hann fékk skilorðsbundinn dóm fyrir heimilisofbeldi í Frakklandi árið 2019.
Hayman kveðst hafa hikað við það að láta skoða heilann í sér. „Ég hummaði það af mér hvort ég ætlaði ekki að gera eitthvað í þessu og hvort það amaði eitthvað að mér í um eitt ár, eða hvort ég ætlaði bara að halda lífi mínu áfram og vona það besta.
Það væri ansi eigingjarnt af mér að ræða þetta ekki opinberlega, tala um reynslu mína þegar ég gæti til dæmis hjálpað einhverjum á Nýja-Sjálandi sem skilur ekki hvað er að gerast fyrir hann og er ekki með neitt stuðningsnet til að grípa sig.“
Samtals eru um 70 fyrrverandi leikmenn þátttakendur í áðurnefndri hópmálshöfðun, og glímir meirihluti þeirra við heilabilun af einhverju tagi.
Heimssambandið í rúgbí hefur á undanförnum árum hert reglur í tengslum við heilahristing og hyggst sjá til þess að fyrrverandi leikmönnum verði útveguð öll sú læknishjálp í tengslum við heilann sem mögulegt er að útvega.