Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Þessa frábæru mynd af Arnari Sigurðssyni, fyrrverandi atvinnumanni í tennis, tók Kristinn Ingvarsson og birtist hún á forsíðu Morgunblaðsins hinn 11. ágúst 2008. Arnar hafði þá tilkynnt um ákvörðun sína að láta staðar numið í atvinnumennskunni vegna bakmeiðsla.
Arnar náði eiginlega lygilegum árangri í tennisíþróttinni ef horft er til þess að hérlendis er lítil hefð fyrir íþróttinni en hún geysilega stór á heimsvísu.
Arnar fékk skólastyrk í University of the Pacific-háskólanum í Kaliforníu og keppti fyrir skólann í tennis í bandarísku háskólaíþróttunum, NCAA. Arnar náði mjög langt í NCAA þar sem fjöldi verðandi atvinnumanna reyndi með sér. Hann vann sér keppnisrétt á lokamóti NCAA árið 2006 og árið áður var hann valinn leikmaður ársins í þeim riðli sem skólinn keppir í: Big West-deildinni. Auk þess fékk Arnar fjölda viðurkenninga í skólanum fyrir árangur sinn á tennisvellinum.
Þegar náminu sleppti freistaði Arnar gæfunnar og gerðist atvinnumaður. Tókst honum eitt árið að vinna sig upp um 800 sæti á heimslista atvinnumanna í greininni en hann sigraði þrívegis á alþjóðlegum mótum á ferlinum.
Arnari var heiður sýndur af Alþjóðatennissambandinu árið 2013 þegar hann fékk svokölluð Commitment-verðlaun ásamt fleirum. Verðlaunin voru afhent í tilefni af 100 ára afmæli Davis Cup-keppninnar, sem er liðakeppni á milli þjóða. Verðlaunin fengu þeir sem náð höfðu að keppa landsleiki á móti 50 þjóðum eða fleiri.
Arnar var þar í góðum félagsskap með köppum á borð við Björn Borg, John McEnroe, Andre Agassi, Boris Becker, Mats Wilander, Roger Federer og fleirum.